Home |  | Audio |  | Index |  | Verses

2 Chronicles Síðari kroníkubók

Chapter: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34 35 36

1 Og er öllu því verki var lokið, er Salómon lét gjöra að musteri Drottins, þá flutti hann helgigjafir Davíðs föður síns inn í það, silfrið og gullið, en öll áhöldin lét hann í féhirslur Drottins húss.
2 Þá safnaði Salómon saman öldungum Ísraels og öllum foringjum kynþáttanna, ætthöfðingjum Ísraelsmanna, til Jerúsalem til þess að flytja sáttmálsörk Drottins upp eftir frá Davíðsborg, það er Síon.
3 Þá söfnuðust allir Ísraelsmenn til konungs í etaním-mánuði á hátíðinni. (Er sá mánuður hinn sjöundi).
4 Þá komu allir öldungar Ísraels, og levítarnir tóku örkina,
5 og þeir fluttu örkina og samfundatjaldið og öll hin helgu áhöld, er í tjaldinu voru. Fluttu levítaprestarnir þau upp eftir.
6 En Salómon konungur og allur Ísraelssöfnuður, er safnast hafði til hans, stóð frammi fyrir örkinni. Fórnuðu þeir sauðum og nautum, er eigi varð tölu né ætlan á komið fyrir fjölda sakir.
7 Og prestarnir fluttu sáttmálsörk Drottins á sinn stað, í innhús musterisins, inn í Hið allrahelgasta, inn undir vængi kerúbanna.
8 Og kerúbarnir breiddu út vængina þar yfir, er örkin stóð, og þannig huldu kerúbarnir örkina og stengur hennar ofan frá.
9 Og stengurnar voru svo langar, að stangarendarnir sáust frá helgidóminum fyrir framan innhúsið, en utan að sáust þeir ekki. Og þær hafa verið þar fram á þennan dag.
10 Í örkinni var ekkert nema töflurnar tvær, er Móse lét þar við Hóreb, töflur sáttmálans, er Drottinn gjörði við Ísraelsmenn, þá er þeir fóru af Egyptalandi.
11 En er prestarnir gengu út úr helgidóminum - því að allir prestarnir, er viðstaddir voru, höfðu helgað sig, flokkaskiptingar var eigi gætt,
12 og allir levítasöngmenn, Asaf, Heman og Jedútún og synir þeirra og bræður, stóðu þar, klæddir baðmullarskikkjum, með skálabumbur, hörpur og gígjur, að austanverðu við altarið, og hjá þeim hundrað og tuttugu prestar, er þeyttu lúðra,
13 en lúðramenn og söngmenn áttu að byrja í senn og einraddað að lofa og vegsama Drottin - og er menn létu lúðra og skálabumbur kveða við og hin önnur hljóðfæri og þakkargjörð til Drottins "því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu," þá fyllti ský musterið, musteri Drottins,
14 og máttu prestarnir eigi inn ganga fyrir skýinu til þess að gegna þjónustu, því að dýrð Drottins fyllti hús Guðs.

Top |  | Next Chapter  |  | Index |  | Home
Full online version here [with search engine, multilingual display and audio Bible]