2 Chronicles Síðari kroníkubók
1 Þegar öllu þessu var lokið, fóru allir Ísraelsmenn, er þar voru viðstaddir, til Júda-borga, brutu sundur merkissteinana, hjuggu sundur asérurnar og rifu niður fórnarhæðirnar og ölturun í öllum Júda, Benjamín, Efraím og Manasse, uns þeim var gjöreytt. Fóru síðan allir Ísraelsmenn aftur til borga sinna, hver til síns óðals.
2 Hiskía setti presta- og levítaflokkana, eftir flokkaskipun þeirra - hvern eftir sinni presta- eða levíta-þjónustu við brennifórnir eða heillafórnir - til þess að þjóna og syngja lof og þakkargjörð í herbúðahliðum Drottins.
3 Og skerfur sá, er konungur lagði til af eigum sínum, gekk til brennifórnanna, til brennifórnanna kvelds og morgna, svo og til brennifórnanna á hvíldardögunum, tunglkomudögunum og löghátíðunum, samkvæmt því sem ritað er í lögmáli Drottins.
4 Og hann bauð lýðnum, Jerúsalembúum, að gefa prestunum og levítunum þeirra skerf, svo að þeir mættu halda fast við lögmál Drottins.
5 Og er þetta boð barst út, reiddu Ísraelsmenn fram ríkulega frumgróða af korni, aldinlegi, olíu, hunangi og öllum jarðargróða, og færðu tíundir af öllu.
6 En Ísraelsmenn og Júdamenn, er bjuggu í Júdaborgum, þeir færðu og tíundir af nautum og sauðum og tíundir af helgigjöfunum, er helgaðar voru Drottni, Guði þeirra, og lögðu bing við bing.
7 Tóku þeir að hrúga upp bingjunum í þriðja mánuði og luku við það í sjöunda mánuði.
8 Kom þá Hiskía og höfuðsmennirnir, litu á bingina og lofuðu Drottin og lýð hans Ísrael.
9 Og er Hiskía spurði prestana og levítana um bingina,
10 þá svaraði honum Asarja, höfuðprestur af ætt Sadóks, og sagði: "Frá því er byrjað var á að færa gjafir í musteri Drottins, höfum vér etið oss sadda og haft þó afar mikið afgangs, því að Drottinn hefir blessað lýð sinn, svo að vér höfum þessi kynstur afgangs."
11 Þá bauð Hiskía, að gjöra skyldi klefa í musteri Drottins, og er svo var gjört,
12 færðu menn þangað ráðvandlega gjafirnar og tíundirnar og helgigjafirnar. Var Kananja levíti umsjónarmaður yfir þeim, og Símeí bróðir hans næstur honum,
13 en Jehíel, Asasja, Nahat, Asahel, Jerímót, Jósabad, Elíel, Jismakja, Mahat og Benaja voru skipaðir Kananja og Símeí bróður hans til aðstoðar við umsjónina, eftir boði Hiskía konungs og Asarja, höfuðsmanns yfir musteri Guðs.
14 Og Kóre Jimnason levíti, hliðvörður að austanverðu, hafði umsjón með sjálfviljagjöfunum, er færðar voru Guði, til þess að afhenda gjafir Drottins og hinar háhelgu gjafir.
15 En undir honum stóðu Eden, Minjamín, Jesúa, Semaja, Amarja og Sekanja, og skyldu þeir með samviskusemi skipta með frændum sínum í prestaborgunum, bæði eldri og yngri, eftir flokkum þeirra,
16 auk þeirra af karlkyni, er skráðir voru í ættartölur, þrevetrum og þaðan af eldri, öllum þeim, er komu í musteri Drottins, svo sem á þurfti að halda dag hvern, til þess að rækja störf sín eftir flokkum samkvæmt þjónustu sinni.
17 Og prestarnir voru skráðir í ættartölur eftir ættum, svo og levítarnir, tvítugir og þaðan af eldri, samkvæmt þjónustu þeirra og flokkaskipun.
18 Voru þeir skráðir í ættartölur ásamt börnum þeirra, konum, sonum og dætrum úr allri stéttinni, því að hinum helgu hlutum átti að skipta ráðvandlega.
19 Auk þess höfðu prestarnir, niðjar Arons, menn á lendum þeim, er voru á beitilöndunum, er lágu undir borgir þeirra, í sérhverri borg - menn er skráðir voru með nafni - og skyldu þeir fá öllum karlmönnum af prestunum og öllum levítunum, er skráðir voru í ættartölur, sinn skerf.
20 Svo gjörði Hiskía í öllum Júda, og hann gjörði það, sem gott var og rétt og ráðvandlegt fyrir Drottni, Guði hans.
21 Og í hverju því verki, er hann tók sér fyrir hendur viðvíkjandi þjónustunni við musteri Guðs, og lögmálinu og boðinu um að leita Guðs síns, breytti hann af heilum hug og varð auðnumaður.