2 Chronicles Síðari kroníkubók
1 Landslýðurinn tók Jóahas Jósíason og gjörði hann að konungi í Jerúsalem eftir föður hans.
2 Jóahas var tuttugu og þriggja ára að aldri, þá er hann varð konungur, og þrjá mánuði ríkti hann í Jerúsalem.
3 En Egyptalandskonungur rak hann frá ríki, til þess að hann skyldi eigi framar ríkja í Jerúsalem, og lagði skattgjald á landið, hundrað talentur silfurs og tíu talentur gulls.
4 Og Egyptalandskonungur gjörði Eljakím bróður hans að konungi yfir Júda og Jerúsalem, og breytti nafni hans í Jójakím. En Jóahas bróður hans tók Nekó og flutti til Egyptalands.
5 Jójakím var tuttugu og fimm ára að aldri, þá er hann varð konungur, og ellefu ár ríkti hann í Jerúsalem. Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, Guðs síns.
6 Gegn honum fór Nebúkadnesar konungur í Babýlon herför og batt hann eirfjötrum til þess að flytja hann til Babýlon.
7 Af áhöldum musteris Drottins flutti Nebúkadnesar og nokkuð til Babýlon og lét þau í höll sína í Babýlon.
8 En það sem meira er að segja um Jójakím og svívirðingar hans, er hann aðhafðist, og annað illt, er fannst í fari hans, það er ritað í bók Ísraels- og Júdakonunga. Og Jójakín sonur hans tók ríki eftir hann.
9 Jójakín var átta vetra gamall, þá er hann varð konungur, og þrjá mánuði og tíu daga ríkti hann í Jerúsalem. Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins.
10 En að ári liðnu sendi Nebúkadnesar konungur og lét flytja hann til Babýlon, ásamt verðmætum áhöldum úr musteri Drottins, en gjörði Sedekía bróður hans að konungi yfir Júda og Jerúsalem.
11 Sedekía var tuttugu og eins árs að aldri, þá er hann varð konungur, og ellefu ár ríkti hann í Jerúsalem.
12 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, Guðs síns, hann auðmýkti sig eigi fyrir Jeremía spámanni, er talaði í nafni Drottins.
13 Sedekía rauf þá trúnaðareiða, er Nebúkadnesar konungur hafði látið hann vinna sér við Guð. En hann þverskallaðist og herti hjarta sitt, svo að hann sneri sér eigi til Drottins, Guðs Ísraels.
14 Þá sýndu og allir höfðingjar prestanna og lýðsins mikla ótrúmennsku með því að drýgja allar sömu svívirðingarnar og heiðingjarnir, og saurguðu svo musteri Drottins, það er hann hafði helgað í Jerúsalem.
15 Og Drottinn, Guð feðra þeirra, sendi þeim stöðugt áminningar fyrir sendiboða sína, því að hann vildi þyrma lýð sínum og bústað sínum.
16 En þeir smánuðu sendiboða Guðs, fyrirlitu orð hans og gjörðu gys að spámönnum hans, uns reiði Drottins við lýð hans var orðin svo mikil, að eigi mátti við gjöra.
17 Hann lét Kaldeakonung fara herför gegn þeim, og drap hann æskumenn þeirra með sverði í helgidómi þeirra. Þyrmdi hann hvorki æskumönnum né ungmeyjum, öldruðum né örvasa - allt gaf Guð honum á vald.
18 Og öll áhöld Guðs húss, stór og smá, svo og fjársjóðu Drottins húss og fjársjóðu konungs og höfðingja hans - allt flutti hann til Babýlon.
19 Þeir brenndu musteri Guðs, rifu niður Jerúsalem-múra, lögðu eld í allar hallir í henni, svo að allt verðmætt í henni týndist.
20 Og þá sem komist höfðu undan sverðinu, herleiddi hann til Babýloníu, og urðu þeir þjónar hans og sona hans, uns Persaríki náði yfirráðum,
21 til þess að rætast skyldi orð Drottins fyrir munn Jeremía: "Þar til er landið hefir fengið hvíldarár sín bætt upp, alla þá stund, sem það var í eyði, naut það hvíldar, uns sjötíu ár voru liðin."
22 En á fyrsta ríkisári Kýrusar Persakonungs blés Drottinn Kýrusi Persakonungi því í brjóst - til þess að orð Drottins fyrir munn Jeremía rættust -, að láta boð út ganga um allt ríki sitt, og það í konungsbréfi, svolátandi boðskap:
23 "Svo segir Kýrus Persakonungur: ,Öll konungsríki jarðarinnar hefir Drottinn, Guð himnanna, gefið mér, og hann hefir skipað mér að reisa sér musteri í Jerúsalem í Júda. Hver sem nú er meðal yðar af öllu hans fólki, með honum sé Drottinn, Guð hans, og hann fari heim.'"