Proverbs Orðskviðirnir
1 Orðskviðir Salómons. Vitur sonur gleður föður sinn, en heimskur sonur er móður sinni til mæðu.
2 Rangfenginn auður stoðar ekki, en réttlæti frelsar frá dauða.
3 Drottinn lætur ekki réttlátan mann þola hungur, en græðgi guðlausra hrindir hann frá sér.
4 Snauður verður sá, er með hangandi hendi vinnur, en auðs aflar iðin hönd.
5 Hygginn er sá, er á sumri safnar, en skammarlega fer þeim, er um kornsláttinn sefur.
6 Blessun kemur yfir höfuð hins réttláta, en munnur óguðlegra hylmir yfir ofbeldi.
7 Minning hins réttláta verður blessuð, en nafn óguðlegra fúnar.
8 Sá sem er vitur í hjarta, þýðist boðorðin, en sá sem er afglapi í munninum, steypir sér í glötun.
9 Sá sem gengur ráðvandlega, gengur óhultur, en sá sem gjörir vegu sína hlykkjótta, verður uppvís.
10 Sá sem deplar með auganu, veldur skapraun, en sá sem finnur að með djörfung, semur frið.
11 Munnur hins réttláta er lífslind, en munnur óguðlegra hylmir yfir ofbeldi.
12 Hatur vekur illdeilur, en kærleikurinn breiðir yfir alla bresti.
13 Viska er á vörum hyggins manns, en á baki hins óvitra hvín vöndurinn.
14 Vitrir menn geyma þekking sína, en munnur afglapans er yfirvofandi hrun.
15 Auður ríks manns er honum öflugt vígi, en fátækt hinna snauðu verður þeim að falli.
16 Afli hins réttláta verður til lífs, gróði hins óguðlega til syndar.
17 Sá fer lífsins leið, er varðveitir aga, en sá villist, er hafnar umvöndun.
18 Sá er leynir hatri, er lygari, en sá sem ber út óhróður, er heimskingi.
19 Málæðinu fylgja yfirsjónir, en sá breytir hyggilega, sem hefir taum á tungu sinni.
20 Tunga hins réttláta er úrvals silfur, vit hins óguðlega er lítils virði.
21 Varir hins réttláta fæða marga, en afglaparnir deyja úr vitleysu.
22 Blessun Drottins, hún auðgar, og erfiði mannsins bætir engu við hana.
23 Heimskingjanum er ánægja að fremja svívirðing, en viskan er hyggnum manni gleði.
24 Það sem hinn óguðlegi óttast, kemur yfir hann, en réttlátum gefst það, er þeir girnast.
25 Þegar vindbylurinn skellur á, er úti um hinn óguðlega, en hinn réttláti stendur á eilífum grundvelli.
26 Það sem edik er tönnunum og reykur augunum, það er letinginn þeim, er hann senda.
27 Ótti Drottins lengir lífdagana, en æviár óguðlegra verða stytt.
28 Eftirvænting réttlátra endar í gleði, en von óguðlegra verður að engu.
29 Vegur Drottins er athvarf sakleysisins, en hrun þeim, er aðhafast illt.
30 Hinn réttláti bifast ekki að eilífu, en hinir óguðlegu munu ekki byggja landið.
31 Munnur hins réttláta framleiðir visku, en fláráð tunga verður upprætt.
32 Varir hins réttláta vita, hvað geðfellt er, en munnur óguðlegra er eintóm flærð.