Proverbs Orðskviðirnir
1 Heyrið, synir, áminning föður yðar og hlýðið til, svo að þér lærið hyggindi!
2 Því að góðan lærdóm gef ég yður, hafnið eigi kenning minni!
3 Þegar ég var sonur í föðurhúsum, viðkvæmt einkabarn heima hjá móður minni,
4 þá kenndi faðir minn mér og sagði við mig: "Hjarta þitt haldi fast orðum mínum, varðveit þú boðorð mín, og muntu lifa!
5 Afla þér visku, afla þér hygginda! Gleym eigi og vík eigi frá orðum munns míns!
6 Hafna henni eigi, þá mun hún varðveita þig, elska hana, þá mun hún vernda þig.
7 Upphaf viskunnar er: afla þér visku, afla þér hygginda fyrir allar eigur þínar!
8 Haf hana í hávegum, þá mun hún hefja þig, hún mun koma þér til vegs, ef þú umfaðmar hana.
9 Hún mun setja yndislegan sveig á höfuð þér, sæma þig prýðilegri kórónu."
10 Heyr þú, son minn, og veit viðtöku orðum mínum, þá munu æviár þín mörg verða.
11 Ég vísa þér veg spekinnar, leiði þig á brautir ráðvendninnar.
12 Gangir þú þær, skal leið þín ekki verða þröng, og hlaupir þú, skalt þú ekki hrasa.
13 Haltu fast í agann, slepptu honum ekki, varðveittu hann, því að hann er líf þitt.
14 Kom þú eigi á götu óguðlegra og gakk eigi á vegi vondra manna.
15 Sneið hjá honum, farðu hann ekki, snú þú frá honum og farðu fram hjá.
16 Því að þeir geta ekki sofið, nema þeir hafi gjört illt, og þeim kemur ekki dúr á auga, nema þeir hafi fellt einhvern.
17 Því að þeir eta glæpabrauð og drekka ofbeldisvín.
18 Gata réttlátra er eins og bjartur árdagsljómi, sem verður æ skærari fram á hádegi.
19 Vegur óguðlegra er eins og niðamyrkur, þeir vita ekki, um hvað þeir hrasa.
20 Son minn, gef gaum að ræðu minni, hneig eyra þitt að orðum mínum.
21 Lát þau eigi víkja frá augum þínum, varðveit þau innst í hjarta þínu.
22 Því að þau eru líf þeirra, er öðlast þau, og lækning fyrir allan líkama þeirra.
23 Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru, því að þar eru uppsprettur lífsins.
24 Haltu fláræði munnsins burt frá þér og lát fals varanna vera fjarri þér.
25 Augu þín líti beint fram og augnalok þín horfi beint fram undan þér.
26 Gjör braut fóta þinna slétta, og allir vegir þínir séu staðfastir.
27 Vík hvorki til hægri né vinstri, haltu fæti þínum burt frá illu.