Home |  | Audio |  | Index |  | Verses

Proverbs Orðskviðirnir

Chapter: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31

1 Son minn, gef gaum að speki minni, hneig eyra þitt að hyggindum mínum,
2 til þess að þú megir varðveita mannvit og varir þínar geymi þekkingu.
3 Því að hunangsseimur drýpur af vörum lauslátrar konu, og gómur hennar er hálli en olía.
4 En að síðustu er hún beiskari en malurt, beitt eins og tvíeggjað sverð.
5 Fætur hennar ganga niður til dauðans, spor hennar liggja til Heljar.
6 Til þess að hún hitti ekki leið lífsins, eru brautir hennar á reiki, og hún veit ekki hvert hún fer.
7 Heyrið mig því, synir, og víkið eigi frá orðum munns míns.
8 Legg leið þína langt frá henni og kom þú ekki nálægt húsdyrum hennar,
9 svo að þú gefir ekki öðrum æskublóma þinn og ár þín grimmum manni,
10 svo að útlendir menn mettist ekki af eigum þínum og aflafé þitt lendi ekki í annarlegu húsi,
11 og þú andvarpir að lokum, þá er líkami þinn og hold veslast upp,
12 og segir: "Hversu hefi ég hatað aga og hjarta mitt fyrirlitið umvöndun!
13 að ég skyldi ekki hlýða raustu kennara minna og hneigja eyra mitt til þeirra, er fræddu mig!
14 Við sjálft lá, að ég hefði ratað í mestu ógæfu á miðju dómþingi safnaðarins."
15 Drekk þú vatn úr vatnsþró þinni og rennandi vatn úr brunni þínum.
16 Eiga lindir þínar að flóa út á götuna, lækir þínir út á torgin?
17 Þér einum skulu þær tilheyra og engum óviðkomandi með þér.
18 Uppspretta þín sé blessuð, og gleð þig yfir festarmey æsku þinnar,
19 elsku-hindinni, yndis-gemsunni. Brjóst hennar gjöri þig ætíð drukkinn, og ást hennar fjötri þig ævinlega.
20 En hví skyldir þú, son minn, láta léttúðarkonu töfra þig, og faðma barm lauslátrar konu?
21 Því að vegir sérhvers manns blasa við Drottni, og allar brautir hans gjörir hann sléttar.
22 Misgjörðir hins óguðlega fanga hann, og hann verður veiddur í snörur synda sinna.
23 Hann mun deyja vegna skorts á aga og kollsteypast vegna sinnar miklu heimsku.

Top |  | Next Chapter  |  | Index |  | Home
Full online version here [with search engine, multilingual display and audio Bible]