Home |  | Audio |  | Index |  | Verses

Proverbs Orðskviðirnir

Chapter: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31

1 Son minn, gleym eigi kenning minni, og hjarta þitt varðveiti boðorð mín,
2 því að langa lífdaga og farsæl ár og velgengni munu þau veita þér í ríkum mæli.
3 Kærleiki og trúfesti munu aldrei yfirgefa þig. Bind þau um háls þér, rita þau á spjald hjarta þíns,
4 þá munt þú ávinna þér hylli og fögur hyggindi, bæði í augum Guðs og manna.
5 Treystu Drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit.
6 Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.
7 Þú skalt ekki þykjast vitur, óttast Drottin og forðast illt,
8 það mun verða heilnæmt fyrir líkama þinn og hressandi fyrir bein þín.
9 Tigna Drottin með eigum þínum og með frumgróða allrar uppskeru þinnar,
10 þá munu hlöður þínar verða nægtafullar og vínberjalögurinn flóa út af vínlagarþróm þínum.
11 Son minn, lítilsvirð eigi ögun Drottins og lát þér eigi gremjast umvöndun hans,
12 því að Drottinn agar þann, sem hann elskar, og lætur þann son kenna til, sem hann hefir mætur á.
13 Sæll er sá maður, sem öðlast hefir speki, sá maður, sem hyggindi hlotnast.
14 Því að betra er að afla sér hennar en að afla silfurs, og arðurinn af henni ágætari en gull.
15 Hún er dýrmætari en perlur, og allir dýrgripir þínir jafnast ekki á við hana.
16 Langir lífdagar eru í hægri hendi hennar, auður og mannvirðingar í vinstri hendi hennar.
17 Vegir hennar eru yndislegir vegir og allar götur hennar velgengni.
18 Hún er lífstré þeim, sem grípa hana, og sæll er hver sá, er heldur fast í hana.
19 Drottinn grundvallaði jörðina með visku, festi himininn af hyggjuviti.
20 Fyrir þekking hans mynduðust hafdjúpin og drýpur döggin úr skýjunum.
21 Son minn, varðveit þú visku og gætni, lát þær eigi víkja frá augum þínum,
22 þá munu þær verða líf sálu þinni og prýði fyrir háls þinn.
23 Þá muntu ganga óhultur veg þinn og eigi drepa við fæti.
24 Þegar þú leggst til hvíldar, þarft þú ekki að hræðast, og hvílist þú, mun svefninn verða vær.
25 Þú þarft ekki að óttast skyndilega hræðslu, né eyðilegging hinna óguðlegu, þegar hún dynur yfir.
26 Því að Drottinn mun vera athvarf þitt og varðveita fót þinn, að hann verði eigi fanginn.
27 Synja eigi góðs þeim, er þarfnast þess, ef það er á þínu valdi að gjöra það.
28 Seg þú ekki við náunga þinn: "Far og kom aftur! á morgun skal ég gefa þér" - ef þú þó átt það til.
29 Brugga eigi illt gegn náunga þínum, þegar hann býr öruggur hjá þér.
30 Deil ekki við neinn að ástæðulausu, ef hann hefir ekki gjört þér neitt mein.
31 Öfunda ekki ofbeldismanninn og haf engar mætur á neinum gjörðum hans.
32 Því að andstyggð er sá Drottni, er afvega fer, en ráðvandir menn alúðarvinir hans.
33 Bölvun Drottins er yfir húsi hins óguðlega, en bústað réttlátra blessar hann.
34 Spottsama spottar hann, en lítillátum veitir hann náð.
35 Vitrir menn munu heiður hljóta, en heimskingjar bera smán úr býtum.

Top |  | Next Chapter  |  | Index |  | Home
Full online version here [with search engine, multilingual display and audio Bible]