Home |  | Audio |  | Index |  | Verses

Ezekiel Esekíel

Chapter: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34 35 36 37 38 39 40 41 42 43 44 45 46 47 48

1 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:
2 "Mannsson, ber upp gátu og seg Ísraelsmönnum líking
3 og mæl: Svo segir Drottinn Guð: Örninn sá hinn mikli með stóru vængina og löngu flugfjaðrirnar, með þykka og marglita fjaðurhaminn, fór upp á Líbanon og tók toppinn af sedrustrénu.
4 Hann braut af efstu brumkvistina og flutti þá til verslunarlandsins. Í kaupmanna borg setti hann þá.
5 Síðan tók hann af gróðri landsins og setti það í sáðland, hann setti það þar sem nóg vatn var, eins og pílvið.
6 Og það óx og varð að vínvið, sem breiddist út lágvaxinn, svo að greinar hans sveigðust aftur að honum og rætur hans héldust undir honum. Og er það var orðið að vínviði, fékk það kvisti og skaut greinum.
7 En það var annar mikill örn með stóra vængi og mikinn fjaðurham, og sjá, vínviður þessi teygði rætur sínar að honum og rétti greinar sínar í móti honum, til þess að hann skyldi vökva hann, en ekki reitinn, sem hann var gróðursettur í,
8 og þó var hann gróðursettur í góðri jörð, þar sem nóg vatn var, til þess að skjóta greinum og bera ávöxtu og verða dýrlegur vínviður.
9 Seg þú: Svo segir Drottinn Guð: Mun það vel gefast? Mun hinn örninn ekki slíta upp rætur hans og afsníða ávöxtu hans, og öll hans nýsprottnu blöð visna? Og eigi mun þurfa mikilla krafta að neyta eða mannafla við að hafa til þess að kippa honum upp með rótum.
10 Nú er hann gróðursettur, en mun það vel gefast? Mun hann ekki skrælna, þegar austanvindurinn fer að leika um hann, mun hann ekki skrælna í reitnum, þar sem hann óx?"
11 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:
12 "Seg við hina þverúðugu kynslóð: Skiljið þér eigi, hvað þetta á að þýða? Seg þú: Sjá, konungurinn í Babýlon kom til Jerúsalem og tók konung hennar og höfðingja og fór með þá heim til sín, til Babýlon.
13 Og hann tók einn af konungsættinni og gjörði sáttmála við hann og tók eið af honum, en leiðtoga landsins hafði hann flutt á burt,
14 til þess að konungsvaldið skyldi vera lítið og eigi geta hafið sig aftur, til þess að hann skyldi halda sáttmála þann, er hann hafði gengist undir, og sáttmálinn standa.
15 En hann hóf uppreisn gegn honum og gjörði sendimenn til Egyptalands eftir hestum og miklu liði. Mun það vel gefast? Mun sá, er slíkt gjörir, klakklaust af komast? Mun sá, er rýfur sáttmála, klakklaust af komast?
16 Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, í aðseturstað þess konungs, er hóf hann til konungdóms, hvers sáttmála hann hefir rofið og að engu haft þann eið, er hann vann honum, hjá honum skal hann deyja í Babýlon.
17 En Faraó mun ekki hjálpa honum í stríðinu með miklum herafla og fjölmennu liði, þá er jarðhryggjum verður hleypt upp og víggarðar hlaðnir, til þess að bana mörgum mönnum.
18 Því að hann hefir eiðinn að engu haft með því að rjúfa sáttmálann. Já, hann seldi til þess hönd sína og gjörði þó allt þetta. Hann skal ekki klakklaust af komast.
19 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Svo sannarlega sem ég lifi, eiðinn, sem hann hefir unnið mér, en þó að engu haft, og sáttmálann, sem hann hefir gjört við mig, en þó rofið, mun ég láta honum í koll koma.
20 Og ég mun kasta neti mínu yfir hann, og hann mun veiddur verða í veiðarfæri mín, og ég mun flytja hann til Babýlon og ganga þar í dóm við hann um tryggðrofin, er hann hefir í frammi við mig haft.
21 Og allt úrvalalið hans meðal allra herflokka hans mun fyrir sverði falla, og þeir, sem eftir verða, munu tvístrast í allar áttir og þér viðurkenna, að ég, Drottinn, hefi talað það.
22 Svo segir Drottinn Guð: Ég mun taka nokkuð af topplimi hins hávaxna sedrustrés og planta því. Af efstu brumkvistum þess mun ég brjóta einn grannan og gróðursetja hann á háu og gnæfandi fjalli.
23 Á hæðarhnjúki Ísraels mun ég gróðursetja hann, og hann mun fá greinar og bera ávöxtu og verða dýrlegur sedrusviður, og alls konar vængjaðir fuglar munu undir honum búa, í forsælunni af greinum hans munu þeir búa.
24 Og öll tré merkurinnar skulu sjá, að ég, Drottinn, niðurlægi hið háa tré og upphef hið lága, læt hið græna tré þorna og hið þurra blómgast. Ég, Drottinn, hefi sagt það og gjört það."

Top |  | Next Chapter  |  | Index |  | Home
Full online version here [with search engine, multilingual display and audio Bible]