Home |  | Audio |  | Index |  | Verses

Ezekiel Esekíel

Chapter: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34 35 36 37 38 39 40 41 42 43 44 45 46 47 48

1 Þá leiddi hann mig að hliðinu, sem vissi til austurs,
2 og sjá, þá kom dýrð Ísraels Guðs úr austri, og var að heyra sem nið mikilla vatna, og landið var uppljómað af dýrð hans.
3 Og sú sýn, sem ég sá, var eins og sýnin, er ég sá, þá er hann kom til þess að eyða borgina, og sem sýnin, er ég sá við Kebarfljótið. Og ég féll fram á ásjónu mína.
4 Og dýrð Drottins fór nú inn í musterið um hliðið, sem til austurs vissi.
5 Kraftur andans hóf mig upp og færði mig inn í innri forgarðinn, og sjá, musterið var fullt af dýrð Drottins.
6 Og ég heyrði einhvern tala til mín úr musterinu, og stóð þó maðurinn enn hjá mér,
7 og hann sagði við mig: "Mannsson, þetta er staður hásætis míns og þetta er skör fóta minna, hér vil ég búa meðal Ísraelsmanna að eilífu. Og Ísraelsmenn skulu eigi framar flekka mitt heilaga nafn, hvorki þeir né konungar þeirra, með hórdómi sínum og líkum konunga sinna,
8 með því að þeir settu þröskuld sinn hjá mínum þröskuldi og dyrastafi sína hjá mínum dyrastaf, svo að ekki var nema veggurinn milli mín og þeirra. Og þannig flekkuðu þeir mitt heilaga nafn með svívirðingum sínum, þeim er þeir frömdu, svo að ég tortímdi þeim í reiði minni.
9 Nú munu þeir láta hórdóm sinn og lík konunga sinna vera langt í burtu frá mér, og ég mun búa meðal þeirra að eilífu.
10 En þú, mannsson, lýs þú musterinu fyrir Ísraelsmönnum, til þess að þeir blygðist sín fyrir misgjörðir sínar.
11 Og þegar þeir blygðast sín fyrir allt það, sem þeir hafa framið, þá skalt þú draga upp musterið og skipulag þess, útgangana úr því og inngangana í það og alla lögun þess og kunngjöra þeim allar tilskipanir og lagafyrirmæli um það, og skrifa þú það upp fyrir augum þeirra, til þess að þeir athugi alla lögun þess og öll ákvæði um það og fari eftir þeim.
12 Þetta er ákvæðið um musterið: Efst uppi á fjallinu skal allt svæði þess hringinn í kring teljast háheilagt. Sjá, þetta er ákvæðið um musterið."
13 Þetta er mál altarisins að álnatali, alinin talin ein alin og þverhönd: Umgjörðin niður við jörðina skal vera álnar há og álnar breið og brúnin út á röndinni hringinn í kring spannarbreið. Og þetta er hæð altarisins:
14 Frá umgjörðinni niður við jörðina upp að neðri stallinum tvær álnir og breiddin ein alin, og frá minni stallinum upp á meiri stallinn fjórar álnir og breiddin ein alin.
15 Og eldstæðið var fjórar álnir, og upp af eldstæðinu gengu hornin fjögur.
16 Og eldstæðið var tólf álna langt og tólf álna breitt, ferhyrningur með fjórum jöfnum hliðum.
17 Og meiri stallurinn var fjórtán álna langur og fjórtán álna breiður á hliðarnar fjórar, og brúnin í kringum hann hálf alin og umgjörðin um hann ein alin hringinn í kring. En þrepin upp að altarinu vissu í austur.
18 Og hann sagði við mig: "Mannsson, svo segir Drottinn Guð: Þetta eru ákvæðin um altarið þann dag, er það er albúið, svo að á því verði fórnað brennifórn og blóði stökkt á það.
19 Þá skalt þú fá ungan uxa til syndafórnar levítaprestunum, sem eru af ætt Sadóks og mega nálgast mig, - segir Drottinn Guð - til þess að þjóna mér.
20 Þú skalt taka nokkuð af blóði hans og ríða því á fjögur horn altarisins, og á fjórar hyrningar stallanna og á umgjörðina hringinn í kring og syndhreinsa það og friðþægja fyrir það.
21 Síðan skalt þú taka syndafórnaruxann og láta brenna hann hjá varðhúsi musterisins fyrir utan helgidóminn.
22 Annan daginn skalt þú færa gallalausan geithafur í syndafórn, til þess að altarið verði syndhreinsað með honum, eins og það var syndhreinsað með uxanum.
23 Þegar þú hefir lokið syndhreinsuninni, skaltu leiða fram ungan uxa, gallalausan, og hrút af hjörðinni gallalausan.
24 Skalt þú leiða þá fram fyrir Drottin, og skulu prestarnir dreifa salti á þá og fórna þeim í brennifórn Drottni til handa.
25 Sjö daga samfleytt skalt þú daglega fórna hafri í syndafórn, og auk þess skal fórna ungum uxa og hrút af hjörðinni, báðum gallalausum.
26 Sjö daga skulu menn þiggja altarið í frið og hreinsa það og vígja það.
27 Og er þeir hafa fullnað dagana, þá skulu prestarnir áttunda daginn og þaðan í frá fórna á altarinu brennifórnum yðar og heillafórnum, og ég vil taka yður náðarsamlega, segir Drottinn Guð."

Top |  | Next Chapter  |  | Index |  | Home
Full online version here [with search engine, multilingual display and audio Bible]