Ezekiel Esekíel
1 Svo segir Drottinn Guð: Hlið innri forgarðsins, það er snýr í austur, skal lokað vera sex virku dagana, en hvíldardaginn skal opna það og tunglkomudaginn skal opna það.
2 Og landshöfðinginn skal koma að utan og ganga inn um forsal hliðsins og nema staðar við dyrastafi hliðsins. Þá skulu prestarnir bera fram brennifórn hans og heillafórn, en hann skal falla fram á þröskuldi hliðsins og ganga síðan út aftur, og hliðinu skal ekki loka til kvelds.
3 Og landslýðurinn skal falla fram fyrir auglit Drottins við dyr þessa hliðs á hvíldardögum og tunglkomudögum.
4 Brennifórnin, sem landshöfðinginn á að færa Drottni, skal vera: Á hvíldardegi sex sauðkindur gallalausar og einn hrútur gallalaus,
5 og auk þess í matfórn ein efa með hverjum hrút, og með sauðkindunum slík matfórn, er hann vill sjálfur gefa, og ein hín af olíu með hverri efu.
6 Á tunglkomudögum skal hún vera ungneyti gallalaust og sex sauðkindur og einn hrútur, allt gallalaust.
7 Og hann skal láta fram bera efu með uxanum og efu með hrútnum í matfórn og með sauðkindunum svo sem hann má af hendi láta, og hín af olíu með hverri efu.
8 Þegar landshöfðinginn gengur inn, skal hann ganga inn um forsal hliðsins og fara sömu leið út aftur.
9 Og þegar landslýðurinn gengur fram fyrir Drottin á löghátíðunum, þá skal sá, er inn hefir gengið um norðurhliðið til þess að falla fram, aftur út fara um suðurhliðið, og sá, er inn hefir gengið um suðurhliðið, skal aftur út fara um norðurhliðið. Enginn skal aftur út fara um það hlið, sem hann hefir inn gengið, heldur skal hann út fara um það hlið, sem gegnt honum er.
10 Og landshöfðinginn skal ganga inn mitt á meðal þeirra, þegar þeir ganga inn, og fara út, þegar þeir fara út.
11 Á hátíðum og löghelgum skal matfórnin vera efa með uxanum og efa með hrútnum, og með sauðkindunum slíkt, er hann vill sjálfur gefa, og hín af olíu með hverri efu.
12 Og þegar landshöfðinginn ber fram sjálfviljafórn, brennifórn eða heillafórn sem sjálfviljafórn Drottni til handa, þá skal upp ljúka fyrir honum því hliðinu, sem í austur snýr. Síðan skal hann bera fram brennifórn sína og heillafórn, eins og hann er vanur að gjöra á hvíldardögum, og ganga síðan út, og þegar hann er farinn út, skal loka hliðinu á eftir honum.
13 Á degi hverjum skal hann láta fram bera ársgamla sauðkind gallalausa í brennifórn Drottni til handa, á hverjum morgni skal hann fram bera hana.
14 Og sem matfórn skal hann fram bera með henni á hverjum morgni 1/6 efu og 1/3 hínar af olíu til þess að væta með mjölið, sem matfórn Drottni til handa. Skal það vera stöðug skyldugreiðsla.
15 Og þannig skulu þeir fram bera sauðkindina og matfórnina og olíuna á hverjum morgni sem stöðuga brennifórn.
16 Svo segir Drottinn Guð: Ef landshöfðinginn gefur einhverjum sona sinna nokkuð af óðali sínu að gjöf, þá skal það tilheyra sonum hans. Það er erfðaeign þeirra.
17 En gefi hann einhverjum þjónustumanna sinna nokkuð af óðali sínu að gjöf, þá skal hann halda því til lausnarársins. Þá skal það hverfa aftur til landshöfðingjans. En óðal sona hans skal haldast í eign þeirra.
18 Og ekki má landshöfðinginn taka neitt af óðali lýðsins og veita honum með því yfirgang. Af sinni eigin eign verður hann að veita sonum sínum arfleifð, til þess að enginn af lýð mínum verði flæmdur burt frá eign sinni."
19 Því næst leiddi hann mig gegnum ganginn, sem liggur fast við hliðið, til hinna heilögu herbergja, sem ætluð eru prestunum og vita í norður. En þar var rúm í ysta horni mót vestri.
20 Og hann sagði við mig: "Þetta er staðurinn, þar sem prestarnir skulu sjóða sektarfórnina og syndafórnina, og þar sem þeir skulu baka matfórnina, til þess að þeir þurfi ekki að bera það út í ytri forgarðinn og þann veg helga lýðinn."
21 Og hann leiddi mig út í ytri forgarðinn og lét mig ganga í gegn, út í fjögur horn forgarðsins, og sjá, lítill forgarður var í hverju horni forgarðsins.
22 Í fjórum hornum forgarðsins voru aftur minni forgarðar, fjörutíu álnir á lengd og þrjátíu álnir á breidd. Voru þeir allir fjórir jafnir að máli.
23 Og í þeim var múrveggur allt í kring, allt í kring í þeim fjórum, og eldstór voru gjörðar neðan til við múrveggina allt í kring.
24 Og hann sagði við mig: "Þetta eru eldhúsin, þar sem þjónustumenn musterisins skulu sjóða sláturfórnir lýðsins."