Ezekiel Esekíel
1 Þessu næst leiddi hann mig inn í aðalhúsið og mældi súlurnar, og voru þær sex álnir að þykkt báðumegin.
2 Og dyrnar voru tíu álna breiðar og dyraveggurinn fimm álnir hvorumegin. Hann mældi lengd Hins heilaga, og var hún fjörutíu álnir og breiddin tuttugu álnir.
3 Síðan gekk hann inn fyrir og mældi dyrastöplana, og voru þeir tveggja álna þykkir og vídd dyranna sex álnir, og dyraveggurinn sjö álnir hvorumegin.
4 Og hann mældi lengd hússins, og var hún tuttugu álnir, og breiddin tuttugu álnir frammi við aðalhúsið. Og hann sagði við mig: "Þetta er Hið allrahelgasta."
5 Þessu næst mældi hann musterisvegginn, og var hann sex álna þykkur og breidd hliðarhússins fjórar álnir allt í kringum musterið.
6 Lágu herbergin hvert áfast við annað, þrjátíu herbergi á þremur hæðum. Stallar voru á veggnum, sem var á musterinu fyrir hliðarherbergin allt í kring, til þess að þau hvíldu á honum, en væru eigi fest á musterisvegginn.
7 Og þau urðu æ breiðari, því ofar sem þau lágu kringum musterið, því að hliðarherbergin voru alveg upp úr hringinn í kringum musterið. Fyrir því minnkaði breidd hússins upp á við, og mátti ganga af neðsta gólfi hliðarhússins yfir neðra loftið upp á efra loftið.
8 Þá sá ég, að á musterishúsinu var pallur hringinn í kring, og grundvöllur hliðarherbergjanna var full sex álna mælistöng.
9 Þykkt útveggsins á hliðarhúsinu var fimm álnir, og var autt svæði milli hliðarhússins og musterisins,
10 milli herbergjanna, tuttugu álna breitt hringinn í kringum musterið.
11 Dyr gengu frá hliðarhúsinu að auðu svæði, aðrar dyrnar til norðurs, hinar til suðurs. Og breidd auða svæðisins var fimm álnir hringinn í kring.
12 Hús lá gegnt afgirta svæðinu við vesturhliðina. Var það sjötíu álna breitt og veggur þess fimm álna þykkur hringinn í kring og lengd þess níutíu álnir.
13 Þessu næst mældi hann musterishúsið, og var það hundrað álna langt. Afgirta svæðið og húsið með veggjum þess var hundrað álnir á lengd.
14 Og framhlið musterishússins og afgirta svæðið austan megin var hundrað álnir á breidd.
15 Og hann mældi lengd hússins gegnt afgirta svæðinu vestan við það og súlnagöng þess beggja vegna, og var það hundrað álnir. Aðalhúsið, innhúsið og forsalur þess,
16 þröskuldarnir og skáhöllu gluggarnir og súlnagöngin umhverfis, þessi þrjú hús voru þiljuð frá jörðu og upp að gluggum . . .
17 Uppi yfir dyrum aðalhússins innan og utan og á öllum veggnum innan og utan hringinn í kring
18 voru gjörðir kerúbar og pálmar, og var einn pálmi milli hverra tveggja kerúba. En kerúbinn hafði tvö andlit.
19 Annars vegar sneri mannsandlit að pálmanum, en ljónsandlit hins vegar. Svo var á húsinu allt um kring.
20 Neðan frá gólfi og upp fyrir dyr voru gjörðir kerúbar og pálmar á veggnum.
21 Umgjörðin yfir dyrunum og dyrastafir aðalhússins mynduðu ferhyrning. Fyrir framan helgidóminn var eitthvað, sem líktist
22 altari af tré, þriggja álna hátt. Það var tvær álnir á lengd og tvær álnir á breidd, og á því voru horn, og undirstöður þess og hliðveggir voru af tré. Og hann sagði við mig: "Þetta er borðið, sem stendur frammi fyrir Drottni."
23 Og tvöfaldar hurðir voru á aðalhúsinu og helgidóminum.
24 Í hvorum dyrum voru tvær hurðir, er léku á hjörum.
25 Og á hurðunum voru kerúbar og pálmar, eins og á veggjunum, og þakskyggni af tré var fram af forsalnum.
26 Og skáhallir gluggar og pálmar voru beggja vegna á hliðarveggjum forsalsins . . .