Ezekiel Esekíel
1 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:
2 "Mannsson, tala þú til samlanda þinna og seg við þá: Þegar ég læt sverð koma yfir eitthvert land, og landsmenn taka mann úr sínum hóp og gjöra hann að varðmanni sínum,
3 og hann sér sverðið koma yfir landið og blæs í lúðurinn og gjörir fólkið vart við, -
4 ef þá sá, er heyrir lúðurþytinn, vill ekki vara sig, og sverðið kemur og sviptir honum í burt, þá mun blóð hans vera á höfði honum sjálfum.
5 Hann heyrði lúðurþytinn, en varaði sig þó ekki; blóð hans hvíli á honum. En hinn hefir gjört viðvart og frelsað líf sitt.
6 En sjái varðmaðurinn sverðið koma, og blæs þó ekki í lúðurinn, svo að fólki er ekki gjört vart við, og sverðið kemur og sviptir einhverjum af þeim burt, þá verður þeim hinum sama burt svipt fyrir sjálfs hans misgjörð, en blóðs hans vil ég krefja af hendi varðmannsins.
7 Þig, mannsson, hefi ég skipað varðmann fyrir Ísraels hús, til þess að þú varir þá við fyrir mína hönd, er þú heyrir orð af munni mínum.
8 Þegar ég segi við hinn óguðlega: ,Þú hinn óguðlegi skalt deyja!' og þú segir ekkert til þess að vara hinn óguðlega við breytni hans, þá skal að vísu hinn óguðlegi deyja fyrir misgjörð sína, en blóðs hans vil ég krefja af þinni hendi.
9 En hafir þú varað hinn óguðlega við breytni hans, að hann skuli láta af henni, en hann lætur samt ekki af breytni sinni, þá skal hann deyja fyrir misgjörð sína, en þú hefir frelsað líf þitt.
10 Mannsson, seg þú við Ísraelsmenn: Þér hafið kveðið svo að orði: ,Afbrot vor og syndir vorar hvíla á oss, og þeirra vegna veslumst vér upp, og hvernig ættum vér þá að geta haldið lífi?'
11 Seg við þá: Svo sannarlega sem ég lifi, - segir Drottinn Guð - hefi ég ekki þóknun á dauða hins óguðlega, heldur að hinn óguðlegi hverfi frá breytni sinni og haldi lífi. Snúið yður, snúið yður frá yðar vondu breytni! Hví viljið þér deyja, Ísraelsmenn?
12 En þú, mannsson, seg við samlanda þína: Ráðvendni hins ráðvanda skal ekki frelsa hann á þeim degi, er hann misgjörir, og guðleysi hins óguðlega skal ekki fella hann á þeim degi, er hann hverfur frá guðleysi sínu, og hinn ráðvandi skal ekki heldur fá lífi haldið fyrir ráðvendni sína á þeim degi, er hann syndgar.
13 Þegar ég segi við hinn ráðvanda: ,Þú skalt vissulega lífi halda!' og hann reiðir sig á ráðvendni sína og fremur glæp, þá skulu ráðvendniverk hans eigi til álita koma, heldur skal hann deyja fyrir glæpinn, sem hann hefir drýgt.
14 Og þegar ég segi við hinn óguðlega: ,Þú skalt vissulega deyja!' og hann lætur af synd sinni og iðkar rétt og réttlæti,
15 skilar aftur veði, endurgreiðir það, er hann hefir rænt, breytir eftir þeim boðorðum, er leiða til lífsins, svo að hann fremur engan glæp, þá skal hann lífi halda og ekki deyja.
16 Allar þær syndir, er hann hefir áður drýgt, skulu honum ekki tilreiknaðar verða. Hann hefir iðkað rétt og réttlæti, hann skal lífi halda!
17 Og samt segja samlandar þínir: ,Atferli Drottins er ekki rétt!' Og það er þó atferli þeirra, sem ekki er rétt.
18 Ef ráðvandur maður hverfur frá ráðvendni sinni og fremur glæp, þá skal hann deyja fyrir það.
19 Og ef óguðlegur maður hverfur frá guðleysi sínu og iðkar rétt og réttlæti, þá skal hann lífi halda fyrir það.
20 Og samt segið þér: ,Atferli Drottins er ekki rétt!' Sérhvern yðar mun ég dæma eftir breytni hans, þér Ísraelsmenn!"
21 Á tólfta árinu eftir að vér vorum herleiddir, fimmta dag hins tíunda mánaðar kom til mín flóttamaður frá Jerúsalem með þau tíðindi: "Borgin er unnin!"
22 En hönd Drottins hafði komið yfir mig kveldið áður en flóttamaðurinn kom, og Guð hafði lokið upp munni mínum áður en hinn kom til mín um morguninn. Munnur minn var upp lokinn, og ég þagði eigi lengur.
23 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:
24 "Mannsson, þeir sem búa í þessum borgarrústum í Ísraelslandi segja: ,Abraham var ekki nema einn og þó fékk hann landið til eignar, en vér erum margir, oss var landið gefið til eignar.'
25 Seg því við þá: Svo segir Drottinn Guð: Þér etið fórnarkjöt á fjöllunum og hefjið augu yðar til skurðgoðanna og úthellið blóði, og þér viljið eiga landið!
26 Þér reiðið yður á sverð yðar, þér hafið svívirðing í frammi, þér smánið hver annars konu, og þér viljið eiga landið!
27 Þú skalt mæla þannig til þeirra: Svo segir Drottinn Guð: Svo sannarlega sem ég lifi, þeir sem hafast við í rústunum, skulu falla fyrir sverði, þá sem eru úti á bersvæði, gef ég villidýrunum að fæðslu, og þeir sem hafast við í klettavígjum og hellum, skulu deyja af drepsótt.
28 Og ég skal gjöra landið að auðn og öræfum, og úti er um þess dýrlega skraut, og Ísraels fjöll skulu í eyði liggja, svo að enginn fer þar um.
29 Og þeir munu viðurkenna, að ég er Drottinn, þegar ég gjöri landið að auðn og öræfum vegna allra þeirra svívirðinga, er þeir hafa framið.
30 Mannsson, samlandar þínir tala sín á milli um þig hjá veggjunum og við húsdyrnar, og segja hver við annan: ,Komið og heyrið, hvaða orð kemur frá Drottni!'
31 Og þeir koma til þín í hópum og sitja frammi fyrir þér, en þegar þeir hafa heyrt orð þín, þá breyta þeir ekki eftir þeim. Því að lygi er í munni þeirra, en hjarta þeirra eltir fégróðann.
32 Og sjá, þú ert þeim eins og ástarkvæði, eins og sá, er hefir fagra söngrödd og vel leikur á strengina: Þeir hlusta á orð þín, en breyta ekki eftir þeim.
33 En þegar það kemur fram, og það kemur vissulega fram, þá munu þeir viðurkenna, að spámaður var meðal þeirra."