Home |  | Audio |  | Index |  | Verses

Jeremiah Jeremía

Chapter: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34 35 36 37 38 39 40 41 42 43 44 45 46 47 48 49 50 51 52

1 Orð Drottins kom til mín:
2 Far og kunngjör Jerúsalem þetta: Svo segir Drottinn: Ég man eftir kærleika æsku þinnar, elsku festartíma þíns, hversu þú fylgdir mér í eyðimörkinni, í ófrjóu landi.
3 Ísrael var helgaður Drottni, frumgróði uppskeru hans, allir þeir, sem vildu eta hann, urðu sekir, ógæfa kom yfir þá - segir Drottinn.
4 Heyrið orð Drottins, Jakobs hús og allar þér ættkvíslir Ísraels húss!
5 Svo segir Drottinn: Hver rangindi hafa feður yðar fundið hjá mér, að þeir hurfu frá mér og eltu fánýt goð og breyttu heimskulega,
6 og sögðu ekki: "Hvar er Drottinn, sem flutti oss burt af Egyptalandi, sem leiddi oss um eyðimörkina, um heiða- og gjótulandið, um þurra og niðdimma landið, um landið, sem enginn fer um og enginn maður býr í?"
7 Ég leiddi yður inn í aldingarðslandið, til þess að þér nytuð ávaxta þess og gæða, en þegar þér voruð komnir þangað, saurguðuð þér land mitt og gjörðuð óðal mitt að viðurstyggð.
8 Prestarnir sögðu ekki: "Hvar er Drottinn?" og þeir, er við lögmálið fengust, þekktu mig ekki. Hirðarnir rufu trúnað við mig, og spámennirnir spáðu í nafni Baals og eltu þá, sem ekki geta hjálpað.
9 Fyrir því mun ég enn þreyta mál við yður - segir Drottinn - og við sonasonu yðar mun ég þreyta mál:
10 Farið yfir til stranda Kitta og gangið úr skugga um, og sendið til Kedars og hyggið vandlega að. Gangið úr skugga um, hvort slíkt hafi nokkurn tíma við borið!
11 hvort nokkur þjóð hafi skipt um guð - og það þótt þeir væru ekki guðir! En mín þjóð hefir látið vegsemd sína fyrir það, sem ekki getur hjálpað.
12 Furðið yður, himnar, á þessu og skelfist og verið agndofa - segir Drottinn.
13 Því að tvennt illt hefir þjóð mín aðhafst: Þeir hafa yfirgefið mig, uppsprettu hins lifandi vatns, til þess að grafa sér brunna, brunna með sprungum, sem ekki halda vatni.
14 Er Ísrael þræll, eða er hann heimafætt þý? Hví er hann orðinn að herfangi?
15 Ljón grenjuðu móti honum, hófu upp öskur sitt og gjörðu land hans að auðn. Borgir hans voru brenndar, urðu mannauðar.
16 Nóf-menn og Takpanes-menn reyttu á þér skallann.
17 Hefir þú ekki bakað þér þetta með því að yfirgefa Drottin, Guð þinn, þá er hann leiddi þig á veginum?
18 Og nú, hvað þarft þú að fara til Egyptalands? Til þess að drekka vatn úr Níl? Og hvað þarft þú að fara til Assýríu? Til þess að drekka vatn úr Efrat?
19 Vonska þín mun aga þig og fráhvarf þitt refsa þér. Þú skalt fá að kenna á því og reyna það, hve illt og beiskt það er, að þú yfirgafst Drottin, Guð þinn. Þú hafðir ekki ótta fyrir mér - segir herrann, Drottinn allsherjar.
20 Fyrir löngu hefir þú sundurbrotið ok þitt, slitið böndin og sagt: "Ég vil ekki þjóna!" Því að á hverjum háum hól og undir hverju grænu tré lagðist þú niður og hóraðist.
21 En ég hafði gróðursett þig sem gæðavínvið, eintómt úrvalssæði, hvernig gastu breytst fyrir mér í villivínviðarteinunga.
22 Já, þótt þú þvægir þér með lút og brúkaðir mikla sápu á þig, þá verður samt misgjörð þín óhrein fyrir mér - herrann Drottinn segir það.
23 Hvernig getur þú sagt: "Ég hefi ekki saurgað mig, ég hefi ekki elt Baalana"? Hygg að athæfi þínu í dalnum, sjá, hvað þú hefir gjört, léttfætta úlfaldahryssa, sem hleypur til og frá.
24 Eins og villiasna, sem vön er eyðimörkinni, stendur hún á öndinni í girndarbruna sínum, - hver fær aftrað losta hennar? Þeir sem hennar leita, þurfa engir að þreyta sig, þeir finna hana í mánuði hennar.
25 Varðveit þú fót þinn, svo að skórinn fari ekki af honum, og háls þinn, svo að hann verði ekki þurr! En þú segir: "Það er til einskis! Nei! Ég elska hina útlendu og þá vil ég elta!"
26 Eins og þjófurinn má skammast sín, þegar hann er staðinn að verkinu, svo má Ísraels hús skammast sín: Þeir, konungar þeirra, höfðingjar þeirra, prestar þeirra og spámenn þeirra,
27 segja við trédrumb: "Þú ert faðir minn!" og við stein: "Þú hefir fætt mig!" Þeir hafa snúið við mér bakinu, en ekki andlitinu, en þegar þeir eru í nauðum staddir, þá hrópa þeir: "Rís upp og hjálpa oss!"
28 En hvar eru guðir þínir, sem þú hefir gjört þér? Þeir verða að rísa upp, ef þeir geta hjálpað þér, þegar þú ert í nauðum staddur! Því að guðir þínir, Júda, eru orðnir eins margir og borgir þínar.
29 Hví þráttið þér við mig? Þér hafið allir rofið trúnað við mig - segir Drottinn.
30 Til einskis hefi ég slegið sonu yðar, aga þýddust þér ekki, sverð yðar tortímdi spámönnum yðar, eins og eyðandi ljón.
31 Þú kynslóð, gef gaum orði Drottins! Hefi ég verið eyðimörk fyrir Ísrael eða niðdimmt land? Hví segir þá þjóð mín: "Vér erum lausir, vér munum ekki koma aftur til þín!"
32 Mun mær gleyma skarti sínu, brúður belti sínu? Og þó hefir þjóð mín gleymt mér afar langan tíma.
33 Hversu haganlega fer þú að ráði þínu, til þess að leita þér ástar! Til þess hefir þú jafnvel vanið þig á glæpa-atferli.
34 Jafnvel á faldi klæða þinna sést blóð saklausra aumingja. Þú stóðst þá eigi að innbroti.
35 Þrátt fyrir allt þetta segir þú: "Ég er saklaus, vissulega hefir reiði hans snúist frá mér." Sjá, nú dreg ég þig fyrir dóm, af því að þú segir: "Ég hefi ekki syndgað."
36 Hví flýtir þú þér svo mjög burt til þess að halda aðra leið? Vonir þínar um Egyptaland munu og bregðast, eins og vonir þínar um Assýríu brugðust.
37 Einnig þaðan munt þú koma, sláandi höndum saman yfir höfði þér, því að Drottinn hefir hafnað þeim, er þú treystir á, og þér mun ekkert lánast með þá.

Top |  | Next Chapter  |  | Index |  | Home
Full online version here [with search engine, multilingual display and audio Bible]