Jeremiah Jeremía
1 Á fjórða ríkisári Jójakíms Jósíasonar, Júdakonungs, kom þetta orð til Jeremía frá Drottni:
2 Tak þér bókrollu og rita á hana öll þau orð, sem ég hefi til þín talað um Ísrael og Júda og allar þjóðir, frá þeim degi er ég talaði við þig, frá dögum Jósía, og allt fram á þennan dag;
3 vera má að Júda hús hlýði á alla þá ógæfu, sem ég hygg að leiða yfir þá, svo að þeir snúi sér, hver og einn frá sínum vonda vegi, og þá mun ég fyrirgefa þeim misgjörð þeirra og synd.
4 Þá kallaði Jeremía á Barúk Neríason, og Barúk ritaði af munni Jeremía á bókrolluna öll orð Drottins, þau er hann hafði til hans talað.
5 Og Jeremía skipaði Barúk og mælti: "Mér er tálmað, ég get ekki farið í musteri Drottins.
6 Far þú því og lestu upphátt úr bókrollunni það, er þú hefir ritað af munni mér, orðin Drottins, fyrir lýðnum í musteri Drottins á föstu-degi. Þú skalt og lesa þau upphátt fyrir öllum Júdamönnum, sem komnir eru hingað úr borgum sínum.
7 Vera má, að þeir gjöri auðmjúkir bæn sína til Drottins og snúi sér hver og einn frá sínum vonda vegi, því að mikil er reiðin og heiftin, sem Drottinn hefir hótað þessum lýð."
8 Og Barúk Neríason gjörði með öllu svo sem Jeremía spámaður lagði fyrir hann og las orð Drottins upphátt úr bókinni í musteri Drottins.
9 En á fimmta ríkisári Jójakíms Jósíasonar, konungs í Júda, í níunda mánuðinum, boðuðu menn allan lýðinn í Jerúsalem og allt það fólk, sem komið var úr Júdaborgum til Jerúsalem, til föstuhalds fyrir Drottni.
10 Þá las Barúk upphátt fyrir öllum lýðnum úr bókinni orð Jeremía í musteri Drottins, í herbergi Gemaría Safanssonar kanslara, í efra forgarðinum, við nýja hliðið á musteri Drottins.
11 En er Míka Gemaríason, Safanssonar, heyrði öll orð Drottins úr bókinni,
12 þá gekk hann ofan í konungshöllina, inn í herbergi kanslarans, og sátu þá allir höfðingjarnir þar: Elísama kanslari, Delaja Semajason, Elnatan Akbórsson, Gemaría Safansson, Sedekía Hananíason og allir hinir höfðingjarnir.
13 En Míka skýrði þeim frá öllu því, er hann hafði heyrt, þá er Barúk las upphátt úr bókinni fyrir öllum lýðnum.
14 Þá sendu allir höfðingjarnir Júdí Nataníason, Selemíasonar, Kúsísonar, til Barúks með svolátandi orðsending: "Tak þér í hönd bókrolluna, sem þú last upphátt úr fyrir lýðnum og kom hingað." Og Barúk Neríason tók bókrolluna sér í hönd og kom til þeirra.
15 En þeir sögðu við hann: "Sestu niður og lestu hana upphátt fyrir oss." Og Barúk gjörði svo.
16 En er þeir höfðu heyrt öll orðin, litu þeir felmtsfullir hver á annan og sögðu við Barúk: "Vér verðum að segja konungi frá öllu þessu!"
17 Jafnframt spurðu þeir Barúk: "Seg oss, hvernig þú hefir skrifað öll þessi orð?"
18 Og Barúk svaraði þeim: "Hann hafði munnlega upp fyrir mér öll þessi orð, en ég skrifaði þau í bókina með bleki."
19 Þá sögðu höfðingjarnir við Barúk: "Far og fel þig, ásamt Jeremía, svo að enginn viti, hvar þið eruð."
20 Síðan gengu þeir til konungs inn í afhýsi hans, en létu bókrolluna eftir í herbergi Elísama kanslara, og sögðu konungi frá öllu þessu.
21 Þá sendi konungur Júdí til þess að sækja bókrolluna, og hann sótti hana í herbergi Elísama kanslara. Síðan las Júdí hana upphátt fyrir konungi og höfðingjunum, sem umhverfis konung stóðu.
22 Konungur bjó í vetrarhöllinni, með því að þetta var í níunda mánuðinum, og eldur brann í glóðarkerinu fyrir framan hann.
23 Í hvert sinn, er Júdí hafði lesið þrjú eða fjögur blöð, skar konungur þau sundur með pennahníf og kastaði þeim á eldinn í glóðarkerinu, uns öll bókrollan var brunnin á eldinum í glóðarkerinu.
24 En hvorki varð konungur hræddur, né nokkur af þjónum hans, þeim er heyrðu öll þessi orð, né heldur rifu þeir klæði sín,
25 og þótt Elnatan, Delaja og Gemaría legðu að konungi að brenna ekki bókrolluna, þá hlýddi hann þeim ekki,
26 heldur skipaði hann Jerahmeel konungssyni og Seraja Asríelssyni og Selemja Abdeelssyni að sækja Barúk skrifara og Jeremía spámann, - en Drottinn fól þá.
27 Þá kom orð Drottins til Jeremía, eftir að konungur hafði brennt bókrolluna, sem hafði inni að halda orð þau, er Barúk hafði ritað af munni Jeremía:
28 Tak þér aftur aðra bókrollu og rita á hana öll hin fyrri orðin, er voru á fyrri bókrollunni, þeirri sem Jójakím Júdakonungur brenndi.
29 En viðvíkjandi Jójakím Júdakonungi skalt þú segja: Svo segir Drottinn: Þú hefir brennt bókrolluna með þeim ummælum: ,Hvers vegna hefir þú skrifað á hana: Babelkonungur mun vissulega koma og eyða þetta land og útrýma úr því mönnum og skepnum!'
30 Fyrir því segir Drottinn svo um Jójakím Júdakonung: Hann skal engan niðja eiga, er sitji í hásæti Davíðs, og hræ hans skal liggja úti í hitanum á daginn og kuldanum á nóttinni.
31 Og ég vil hegna honum og niðjum hans og þjónum hans fyrir misgjörð þeirra og ég vil láta yfir þá koma og yfir Jerúsalembúa og Júdamenn alla þá ógæfu, er ég hefi hótað þeim, án þess að þeir hlýddu.
32 Og Jeremía tók aðra bókrollu og fékk hana Barúk skrifara Neríasyni, og hann skrifaði á hana af munni Jeremía öll orð bókar þeirrar, er Jójakím Júdakonungur hafði brennt í eldi, - en auk þeirra var enn fremur bætt við mörgum orðum líkum hinum.