Jeremiah Jeremía
1 En er Jeremía hafði lokið að mæla til alls lýðsins öll orð Drottins, Guðs þeirra, öll þau orð, er Drottinn, Guð þeirra, hafði sent hann með til þeirra,
2 þá sögðu Asarja Hósajason og Jóhanan Kareason og allir ofstopafullu mennirnir við Jeremía: "Þú talar lygi! Drottinn, Guð vor, hefir eigi sent þig og sagt: ,Þér skuluð eigi fara til Egyptalands, til þess að dveljast þar sem flóttamenn!'
3 heldur egnir Barúk Neríason þig upp á móti oss, til þess að selja oss á vald Kaldeum, að þeir drepi oss eða herleiði oss til Babýlon."
4 Og ekki hlýddu Jóhanan Kareason og allir hershöfðingjarnir og allur lýðurinn skipun Drottins, að vera kyrrir í Júda,
5 heldur tóku þeir Jóhanan Kareason og allir hershöfðingjarnir allar leifar Júdamanna, er aftur voru heim komnar frá öllum þeim þjóðum, þangað sem þeir höfðu verið brott reknir, til þess að dveljast í Júda,
6 menn og konur og börn og konungsdæturnar og allar þær sálir, sem Nebúsaradan lífvarðarforingi hafði skilið eftir hjá Gedalja Ahíkamssyni, Safanssonar, svo og Jeremía spámann og Barúk Neríason,
7 og fóru til Egyptalands, því að þeir hlýddu ekki skipun Drottins. Og þeir fóru til Takpanes.
8 Orð Drottins kom til Jeremía í Takpanes:
9 Tak þér í hönd stóra steina og graf þá í steinlími niður í steinhlaðið, sem er úti fyrir dyrum hallar Faraós í Takpanes, í viðurvist flóttamannanna frá Júda
10 og seg við þá: Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Sjá, ég sendi og læt sækja Nebúkadresar Babelkonung, þjón minn, og reisi hásæti hans yfir þessum steinum, er ég hefi grafið niður, og hann skal breiða hásætisdúk sinn yfir þá.
11 Og hann mun koma og ljósta Egyptaland: Hann mun framselja dauðanum þann, sem dauða er ætlaður, herleiðingunni þann, sem herleiðingu er ætlaður, og sverðinu þann, sem sverði er ætlaður!
12 Ég mun leggja eld í musteri guða Egyptalands, og hann mun brenna þau til ösku og flytja burt guði þeirra, og hann mun vefja um sig Egyptalandi, eins og hirðir vefur um sig skikkju sinni. Síðan mun hann fara þaðan óáreittur.
13 Og hann mun brjóta sundur súlurnar í Betsemes í Egyptalandi og brenna musteri guða Egyptalands í eldi.