Jeremiah Jeremía
1 Þessi eru orð bréfsins, sem Jeremía spámaður sendi frá Jerúsalem til öldunga hinna herleiddu og til prestanna og til spámannanna og til alls lýðsins, sem Nebúkadnesar hafði herleitt frá Jerúsalem til Babýlon
2 (eftir að Jekonja konungur og konungsmóðir og hirðmennirnir, höfðingjar Júda og Jerúsalem, og trésmiðirnir og járnsmiðirnir voru farnir burt úr Jerúsalem),
3 með Elasa Safanssyni og Gemaría Hilkíasyni, sem Sedekía Júdakonungur sendi til Nebúkadnesars Babelkonungs til Babýlon:
4 "Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð, öllum hinum herleiddu, þeim er ég herleiddi frá Jerúsalem til Babýlon:
5 Reisið hús og búið í þeim, plantið garða og etið ávöxtu þeirra.
6 Takið yður konur og getið sonu og dætur, og takið sonum yðar konur og giftið dætur yðar, til þess að þær megi fæða sonu og dætur og yður fjölgi þar, en fækki ekki.
7 Látið yður umhugað um heill borgarinnar, sem ég herleiddi yður til, og biðjið til Drottins fyrir henni, því að heill hennar er heill sjálfra yðar.
8 Því að svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Látið eigi spámenn yðar, sem meðal yðar eru, né spásagnamenn yðar tæla yður, og trúið ekki á drauma yðar, sem yður dreymir.
9 Því að þeir spá yður ranglega í mínu nafni, ég hefi ekki sent þá! - segir Drottinn.
10 Svo segir Drottinn: Þegar sjötíu ár eru umliðin fyrir Babýlon, mun ég vitja yðar og efna við yður fyrirheit mitt að flytja yður aftur á þennan stað.
11 Því að ég þekki þær fyrirætlanir, sem ég hefi í hyggju með yður - segir Drottinn - fyrirætlanir til heilla, en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð.
12 Þá munuð þér ákalla mig og fara og biðja til mín, og ég mun bænheyra yður.
13 Og þér munuð leita mín og finna mig. Þegar þér leitið mín af öllu hjarta,
14 vil ég láta yður finna mig - segir Drottinn - og snúa við högum yðar og safna yður saman frá öllum þjóðum og úr öllum þeim stöðum, þangað sem ég hefi rekið yður - segir Drottinn - og flytja yður aftur á þann stað, þaðan sem ég herleiddi yður.
15 Þér segið: ,Drottinn hefir vakið oss upp spámenn í Babýlon.'
16 Svo segir Drottinn um konunginn, sem situr í hásæti Davíðs, og um allan lýðinn, sem býr í þessari borg, bræður yðar, sem ekki voru herleiddir með yður -
17 svo segir Drottinn allsherjar: Sjá, ég sendi yfir þá sverð, hungur og drepsótt og gjöri þá eins og viðbjóðslegar fíkjur, sem eru svo vondar, að þær eru ekki ætar,
18 og ég elti þá með sverði, hungri og drepsótt og gjöri þá að grýlu öllum konungsríkjum jarðar, að formæling, að skelfing, að spotti og háðung meðal allra þjóða, þangað sem ég rek þá,
19 fyrir það að þeir hlýddu ekki orðum mínum - segir Drottinn - er ég hefi óaflátanlega sent þjóna mína, spámennina, með til þeirra, en þér heyrðuð ekki - segir Drottinn.
20 En heyrið þér orð Drottins, allir þér hinir herleiddu, er ég hefi sent frá Jerúsalem til Babýlon.
21 Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð, um Ahab Kólajason og um Sedekía Maasejason, sem boða yður lygar í mínu nafni: Sjá, ég gef þá Nebúkadresar Babelkonungi á vald, og hann mun láta drepa þá fyrir augum yðar.
22 Og þeir munu verða bölbænar-formáli fyrir alla hina herleiddu úr Júda, sem eru í Babýlon, svo að menn kveði svo að orði: ,Drottinn fari með þig eins og Sedekía og Ahab, sem Babelkonungur steikti á eldi.'
23 Sök þeirra er, að þeir frömdu óhæfuverk í Ísrael og drýgðu hór með konum vina sinna og töluðu orð í mínu nafni, er ég hafði þeim eigi um boðið, já ég þekki það sjálfur og er vottur að því! - segir Drottinn."
24 En við Semaja frá Nehalam skalt þú segja á þessa leið:
25 Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Þú hefir sent bréf í þínu eigin nafni til alls lýðsins, sem er í Jerúsalem, og til Sefanía Maasejasonar prests og til allra prestanna, þess efnis:
26 "Drottinn hefir sett þig prest í stað Jójada prests, til þess að þú hafir nákvæmar gætur í musteri Drottins á öllum óðum mönnum og þeim, er spámannsæði er á, og setjir þá í stokk og hálsjárn!
27 Hví hefir þú þá ekki ávítað Jeremía frá Anatót, sem hér iðkar spádóma?
28 Þannig hefir hann gjört oss svolátandi orðsending til Babýlon: ,Það verður langvinnt! Reisið hús og búið í þeim og plantið garða og etið ávöxtu þeirra.'"
29 En Sefanía prestur las þetta bréf upphátt fyrir Jeremía spámanni.
30 Þá kom orð Drottins til Jeremía, svo hljóðandi:
31 Gjör öllum hinum herleiddu svo hljóðandi orðsending: Svo segir Drottinn um Semaja frá Nehalam: Sökum þess að Semaja hefir spáð yður án þess að ég hafi sent hann og ginnt yður til þess að reiða yður á lygar,
32 fyrir því segir Drottinn svo: Sjá, ég mun hefna þess á Semaja frá Nehalam og niðjum hans. Hann skal ekki eiga neinn niðja, sem búi meðal þessarar þjóðar, og hann skal ekki fá litið þau gæði, sem ég bý þjóð minni - segir Drottinn - því að hann hefir prédikað fráhvarf frá Drottni.