Home |  | Audio |  | Index |  | Verses

Jeremiah Jeremía

Chapter: 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34 35 36 37 38 39 40 41 42 43 44 45 46 47 48 49 50 51 52

1 Þegar maður rekur frá sér konu sína, og hún fer frá honum og giftist öðrum manni, getur hann þá horfið til hennar aftur? Mundi landið ekki vanhelgast af því? En þú hefir drýgt hór með mörgum friðlum og ættir þó að snúa aftur til mín! - segir Drottinn.
2 Renn augum þínum upp á skóglausu hæðirnar og gæt að: Hvar hefir þú eigi hórast? Við vegina situr þú um friðla eins og Arabi í eyðimörkinni og vanhelgar landið með lauslæti þínu og vonsku þinni.
3 Og þótt skúrunum væri haldið aftur og ekkert vorregn kæmi, þá varst þú með hórusvip, þú vildir ekki skammast þín.
4 En nú kallar þú til mín: "Faðir minn! Þú ert unnusti æsku minnar!"
5 Þú hugsar: "Mun hann verða reiður eilíflega, alltaf erfa það?" Sjá, þannig talar þú, en fremur illt og getur fengið það af þér.
6 Drottinn sagði við mig á dögum Jósía konungs: Hefir þú séð, hvað hin fráhverfa Ísrael hefir aðhafst? Hún fór upp á hverja háa hæð og inn undir hvert grænt tré og hóraðist þar.
7 Ég hugsaði raunar: Eftir að hún hefir aðhafst allt þetta, mun hún snúa aftur til mín. En hún sneri ekki aftur. Það sá hin ótrúa systir hennar, Júda,
8 og þótt hún sæi, að einmitt vegna þess, að hin fráhverfa Ísrael hafði drýgt hór, hafði ég rekið hana burt og gefið henni skilnaðarskrá, þá óttaðist ekki hin ótrúa systir hennar, Júda, heldur fór og drýgði líka hór,
9 og með hinu léttúðarfulla lauslæti sínu vanhelgaði hún landið og drýgði hór með steini og trédrumbi.
10 En þrátt fyrir allt þetta hefir hin ótrúa systir hennar, Júda, eigi snúið sér til mín af öllu hjarta, heldur með hræsni - segir Drottinn.
11 Drottinn sagði við mig: Hin fráhverfa Ísrael er saklaus í samanburði við hina ótrúu Júda.
12 Far þú og kalla þessi orð í norðurátt og seg: Hverf aftur, þú hin fráhverfa Ísrael - segir Drottinn -, ég vil ekki lengur líta reiðulega til þín, því að ég er miskunnsamur - segir Drottinn -, ég er ekki eilíflega reiður.
13 Kannastu aðeins við ávirðing þína, að þú hefir rofið trúnað við Drottin, Guð þinn, og hlaupið ýmsar leiðir til þess að gefa þig á vald útlendum guðum undir hverju grænu tré, en minni raust hafið þér ekki hlýtt - segir Drottinn.
14 Hverfið aftur, þér fráhorfnu synir - segir Drottinn -, því að ég er herra yðar. Og ég vil taka yður, einn úr hverri borg og tvo af hverjum kynstofni, og flytja yður til Síonar,
15 og ég vil gefa yður hirða eftir mínu hjarta, og þeir munu gæta yðar með greind og hyggindum.
16 Á þeim dögum, þegar yður fjölgar og þér verðið frjósamir í landinu - segir Drottinn -, þá munu menn eigi framar segja: "Sáttmálsörk Drottins!" Hún mun engum í hug koma, og þeir munu ekki minnast hennar né sakna hennar, né heldur munu menn framar búa aðra til.
17 Þá munu menn kalla Jerúsalem "hásæti Drottins" og allar þjóðir munu safnast þangað vegna nafns Drottins og eigi framar fara eftir þrjósku síns vonda hjarta.
18 Á þeim dögum mun Júda hús ganga til Ísraels húss, og þeir munu halda saman úr landinu norður frá inn í landið, sem ég gaf feðrum yðar til eignar.
19 Ég hafði hugsað: Hversu hátt vil ég setja þig meðal barnanna og gefa þér unaðslegt land, hina dýrlegustu arfleifð meðal allra þjóða! Og enn fremur hugsaði ég: Þér skuluð nefna mig föður og eigi láta af að fylgja mér.
20 En eins og kona verður ótrú elskhuga sínum, eins urðuð þér ótrúir mér, Ísraels hús - segir Drottinn.
21 Hljóð heyrist á skóglausu hæðunum: grátbiðjandi kvein Ísraelsmanna, af því að þeir hafa breytt illa og gleymt Drottni Guði sínum.
22 "Hverfið aftur, þér fráhorfnu synir, ég vil lækna fráhvarfssyndir yðar!" "Hér erum vér, vér komum til þín, því að þú ert Drottinn Guð vor."
23 Vissulega er hávaðinn á hæðunum svikull. Vissulega er hjálp Ísraels hjá Drottni, Guði vorum.
24 Falsguðinn hefir eytt afla feðra vorra allt frá æsku vorri, sauðum þeirra og nautum, sonum þeirra og dætrum.
25 Vér skulum leggjast niður í smán vorri, og skömm vor hylji oss, því að á móti Drottni Guði vorum höfum vér syndgað, bæði vér og feður vorir, frá æsku vorri og allt fram á þennan dag, og höfum eigi hlýtt raustu Drottins Guðs vors.

Top |  | Next Chapter  |  | Index |  | Home
Full online version here [with search engine, multilingual display and audio Bible]