Jeremiah Jeremía
1 Orðið sem Drottinn talaði um Babýlon, um land Kaldea, fyrir munn Jeremía spámanns.
2 Kunngjörið það meðal þjóðanna, boðið það og setjið upp merki! Boðið það, dyljið það ekki! Segið: "Babýlon er unnin! Bel er orðin til skammar! Mardúk niður brotinn! Líkneskin eru orðin til skammar, skurðgoðin niður brotin!"
3 Þjóð kemur á móti henni úr norðurátt, hún gjörir land hennar að auðn, svo að enginn maður býr þar framar, bæði menn og skepnur flýja, fara burt.
4 Á þeim dögum og á þeim tíma - segir Drottinn - munu Ísraelsmenn koma, ásamt Júdamönnum. Grátandi munu þeir ganga og leita Drottins, Guðs síns.
5 Þeir spyrja eftir Síon, þangað stefna þeir. Þeir koma og ganga Drottni á hönd með eilífum sáttmála, sem ekki mun gleymast.
6 Þjóð mín var sem týndir sauðir, hirðar þeirra leiddu þá afvega, tældu þá upp í fjöll, þeir reikuðu af hálsi á hæð, gleymdu bóli sínu.
7 Allir, sem hittu þá, átu þá, og mótstöðumenn þeirra sögðu: "Vér bökum oss enga sekt, vegna þess að þeir syndguðu gegn Drottni, haglendi réttlætisins og von feðra þeirra, Drottni."
8 Flýið burt úr Babýlon og farið burt úr landi Kaldea og verið sem hafrar á undan hjörðinni.
9 Sjá, ég læt upp rísa safn mikilla þjóða frá norðlægum löndum, er fer á móti Babýlon. Þær munu skipa sér móti henni. Þaðan mun hún unnin verða. Örvar þeirra eru eins og giftusöm hetja, er ekki hverfur aftur við svo búið.
10 Kaldea skal verða að herfangi, allir, sem hana ræna, fá nægju sína - segir Drottinn.
11 Gleðjist, já fagnið, þér ránsmenn eignar minnar, já stökkvið eins og þreskjandi kvíga og hvíið eins og stóðhestar.
12 Móðir yðar verður mjög til skammar, hún, sem ól yður, má fyrirverða sig. Sjá, hún er hin síðasta meðal þjóðanna, eyðimörk, þurrt land, heiði!
13 Vegna reiði Drottins mun hún verða óbyggð og verða algjörlega að auðn. Hvern, sem fer fram hjá Babýlon, mun hrylla við, og hann mun hæðast að öllum áföllunum, sem hún hefir orðið fyrir.
14 Skipið yður niður kringum Babýlon, allir þér bogmenn! Skjótið á hana, sparið ekki örvarnar, því að gegn Drottni hefir hún syndgað.
15 Ljóstið upp ópi hringinn í kringum hana: Hún hefir gefist upp, stoðir hennar eru fallnar, múrar hennar niður rifnir, það er hefnd Drottins. Hefnið yðar á henni. Gjörið við hana eins og hún hefir til gjört.
16 Afmáið í Babýlon sáðmanninn og þann, er sigðina ber um uppskerutímann. Fyrir hinu vígfreka sverði munu þeir hver og einn hverfa til sinnar þjóðar og flýja hver og einn til síns lands.
17 Ísrael er sem burtflæmdur sauður, er ljón hafa elt: Fyrst át Assýríukonungur hann og nú síðast hefir Nebúkadresar Babelkonungur nagað bein hans.
18 Fyrir því segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð, svo: Sjá, ég vitja Babelkonungs og lands hans, eins og ég vitjaði Assýríukonungs.
19 Ég leiði Ísrael aftur heim í haglendi sitt, og hann skal vera á beit á Karmel og í Basan og seðja hungur sitt á Efraím-fjöllum og í Gíleað.
20 Á þeim dögum og á þeim tíma - segir Drottinn - mun leitað verða að sekt Ísraels, en hún er ekki framar til, og að syndum Júda, en þær finnast ekki, því að ég mun fyrirgefa þeim, sem ég læt eftir verða.
21 Far móti Maratajím-héraði og gegn íbúum Pekod. Eyð þeim og helga þá banni - segir Drottinn - og gjör með öllu svo sem ég hefi fyrir þig lagt.
22 Heyr! Stríð í landinu og mikil eyðilegging!
23 Hversu er hamarinn, sem laust alla jörðina, höggvinn af skafti og sundurbrotinn! Hversu er Babýlon orðin að skelfingu meðal þjóðanna!
24 Ég lagði snöru fyrir þig - Babýlon, og þú festist og vissir ekki af. Þú náðist og þú varst gripin, því að þú hafðir dirfst að berjast gegn Drottni.
25 Drottinn hefir lokið upp vopnabúri sínu og tekið út vopn reiði sinnar, því að herrann, Drottinn allsherjar, hefir verk með höndum í landi Kaldea.
26 Komið móti henni úr öllum áttum, ljúkið upp hlöðum hennar, kastið henni eins og bundinum í bing og helgið hana banni! Látið engar leifar af henni eftir verða!
27 Drepið alla uxa hennar, þeir skulu hníga niður til slátrunar. Vei þeim, því að dagur þeirra er kominn, hegningartími þeirra.
28 Heyr! Hér eru menn, sem flúið hafa og komist undan frá Babýlon til þess að boða í Síon að Drottinn, Guð vor, hefnir, hefnir fyrir musteri sitt.
29 Bjóðið skyttum út gegn Babýlon, öllum þeim sem benda boga! Setjið herbúðir allt í kringum hana! Látið engan komast undan! Gjaldið henni eftir verkum hennar! Gjörið við hana að öllu svo sem hún hefir til gjört, því að hún hefir ofmetnast gegn Drottni, gegn Hinum heilaga í Ísrael.
30 Fyrir því skulu æskumenn hennar falla á torgunum og allir hermenn hennar farast á þeim degi - segir Drottinn.
31 Sjá, ég ætla að finna þig, Drambsemi - segir herrann, Drottinn allsherjar - því að dagur þinn er kominn, hegningartími þinn.
32 Nú skal Drambsemi hrasa og falla, og enginn skal reisa hana á fætur, og ég mun leggja eld í borgir hennar, og hann skal eyða öllu því, sem umhverfis hana er.
33 Svo segir Drottinn allsherjar: Kúgaðir eru Ísraelsmenn og Júdamenn allir saman. Allir þeir, er þá hafa herleitt, halda þeim föstum, vilja ekki láta þá lausa.
34 En lausnari þeirra er sterkur, - Drottinn allsherjar heitir hann. Hann mun reka mál þeirra með dugnaði, til þess að hann speki jörðina, en óspeki Babýlonsbúa.
35 Sverð komi yfir Kaldea - segir Drottinn - og yfir Babýlonsbúa og yfir höfðingja hennar og vitringa!
36 Sverð komi yfir þvaðrarana, svo að þeir standi eins og afglapar! Sverð komi yfir kappa hennar, svo að þeir verði huglausir!
37 Sverð komi yfir hesta hennar og vagna og yfir allan þjóðblendinginn, sem í henni er, svo að þeir verði að konum! Sverð komi yfir fjársjóðu hennar, svo að þeim verði rænt!
38 Sverð komi yfir vötn hennar, svo að þau þorni! Því að skurðgoðaland er það, og þeir láta sem vitfirringar með skelfingar-líkneskin.
39 Fyrir því munu urðarkettir búa hjá sjökulum, og strútsfuglar búa í henni, og hún skal ekki framar byggð vera að eilífu, né þar verða búið frá kyni til kyns.
40 Eins og Guð umturnaði Sódómu og Gómorru og nágrannaborgunum - segir Drottinn - svo skal og enginn maður búa þar né nokkurt mannsbarn hafast við í henni.
41 Sjá, lýður kemur úr norðurátt og mikil þjóð og voldugir konungar rísa upp á útkjálkum jarðar.
42 Þeir bera boga og skotspjót, þeir eru grimmir og sýna enga miskunn, háreysti þeirra er sem hafgnýr, og þeir ríða hestum, búnir sem hermenn til bardaga gegn þér, dóttirin Babýlon.
43 Babelkonungur hefir fengið fregnir af þeim, hendur hans eru magnlausar, angist hefir gripið hann, kvalir, eins og jóðsjúka konu.
44 Sjá, eins og ljón, sem kemur út úr kjarrinu á Jórdanbökkum og stígur upp á sígrænt engið, svo mun ég skyndilega reka þá burt þaðan, og hvern þann, sem útvalinn er, mun ég setja yfir hana. Því að hver er minn líki? Hver vill stefna mér? Hver er sá hirðir, er fái staðist fyrir mér?
45 Heyrið því ráðsályktun Drottins, er hann hefir gjört viðvíkjandi Babýlon, og þær fyrirætlanir, er hann hefir í huga viðvíkjandi landi Kaldea: Sannarlega munu þeir draga þá burt, hina lítilmótlegustu úr hjörðinni. Sannarlega skal haglendið verða agndofa yfir þeim.
46 Af ópinu: "Babýlon er unnin" nötrar jörðin, og neyðarkvein heyrist meðal þjóðanna.