Psalms Sálmarnir
1 Halelúja. Lofið Drottin af himnum, lofið hann á hæðum.
2 Lofið hann, allir englar hans, lofið hann, allir herskarar hans.
3 Lofið hann, sól og tungl, lofið hann, allar lýsandi stjörnur.
4 Lofið hann, himnar himnanna og vötnin, sem eru yfir himninum.
5 Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans boði voru þau sköpuð.
6 Og hann fékk þeim stað um aldur og ævi, hann gaf þeim lög, sem þau mega eigi brjóta.
7 Lofið Drottin af jörðu, þér sjóskrímsl og allir hafstraumar,
8 eldur og hagl, snjór og reykur, stormbylurinn, sem framkvæmir orð hans,
9 fjöllin og allar hæðir, ávaxtartrén og öll sedrustrén,
10 villidýrin og allur fénaður, skriðkvikindin og fleygir fuglar,
11 konungar jarðarinnar og allar þjóðir, höfðingjar og allir dómendur jarðar,
12 bæði yngismenn og yngismeyjar, öldungar og ungir sveinar!
13 Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans nafn eitt er hátt upp hafið, tign hans er yfir jörð og himni.
14 Hann lyftir upp horni fyrir lýð sinn, lofsöngur hljómi hjá öllum dýrkendum hans, hjá sonum Ísraels, þjóðinni, sem er nálæg honum. Halelúja.