Psalms Sálmarnir
1 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Miktam eftir Davíð, þá er hann flýði inn í hellinn fyrir Sál. (57:2) Ver mér náðugur, ó Guð, ver mér náðugur! Því að hjá þér leitar sál mín hælis, og í skugga vængja þinna vil ég hælis leita, uns voðinn er liðinn hjá.
2 (57:3) Ég hrópa til Guðs, hins hæsta, þess Guðs, er kemur öllu vel til vegar fyrir mig.
3 (57:4) Hann sendir af himni og hjálpar mér, þegar sá er kremur mig spottar. [Sela] Guð sendir náð sína og trúfesti.
4 (57:5) Ég verð að liggja meðal ljóna, er eldi fnæsa. Tennur þeirra eru spjót og örvar, og tungur þeirra eru bitur sverð.
5 (57:6) Sýn þig himnum hærri, ó Guð, dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina!
6 (57:7) Þeir hafa lagt net fyrir fætur mína, sál mín er beygð. Þeir hafa grafið gryfju fyrir framan mig, sjálfir falla þeir í hana. [Sela]
7 (57:8) Hjarta mitt er stöðugt, ó Guð, hjarta mitt er stöðugt, ég vil syngja og leika.
8 (57:9) Vakna þú, sál mín, vakna þú, harpa og gígja, ég vil vekja morgunroðann.
9 (57:10) Ég vil lofa þig meðal lýðanna, Drottinn, vegsama þig meðal þjóðanna,
10 (57:11) því að miskunn þín nær til himna og trúfesti þín til skýjanna.
11 (57:12) Sýn þig himnum hærri, ó Guð, dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina.