Psalms Sálmarnir
1 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Miktam eftir Davíð, þá er Sál sendi menn og þeir héldu vörð um húsið til þess að drepa hann. (59:2) Frelsa mig frá óvinum mínum, Guð minn, bjarga mér frá fjendum mínum.
2 (59:3) Frelsa mig frá illgjörðamönnunum og hjálpa mér gegn morðingjunum,
3 (59:4) því sjá, þeir sitja um líf mitt, hinir sterku áreita mig, þótt ég hafi ekki brotið eða syndgað, Drottinn.
4 (59:5) Þótt ég hafi eigi misgjört, hlaupa þeir að og búast til áhlaups. Vakna þú mér til liðveislu og lít á!
5 (59:6) En þú, Drottinn, Guð hersveitanna, Ísraels Guð, vakna þú til þess að vitja allra þjóðanna, þyrm eigi neinum fráhverfum syndara. [Sela]
6 (59:7) Á hverju kvöldi koma þeir aftur, ýlfra eins og hundar og sveima um borgina.
7 (59:8) Sjá, það freyðir úr munni þeirra, sverð eru á vörum þeirra, því að - "Hver heyrir?"
8 (59:9) En þú, Drottinn, hlærð að þeim, þú gjörir gys að öllum þjóðunum.
9 (59:10) Vígi mitt, um þig vil ég kveða, því að Guð er háborg mín.
10 (59:11) Guð kemur í móti mér með náð sinni, Guð lætur mig sjá óvini mína auðmýkta.
11 (59:12) Drep þá eigi, svo að lýður minn gleymi eigi, lát þá reika fyrir veldi þínu og steyp þeim af stóli, þú Drottinn, skjöldur vor,
12 (59:13) sakir syndar munns þeirra, orðsins af vörum þeirra, og lát þá verða veidda í hroka þeirra, og sakir formælinga þeirra og lygi, er þeir tala.
13 (59:14) Afmá þá í reiði, afmá þá, uns þeir eru eigi framar til, og lát þá kenna á því, að Guð ríkir yfir Jakobsætt, allt til endimarka jarðar. [Sela]
14 (59:15) Á hverju kveldi koma þeir aftur, ýlfra eins og hundar og sveima um borgina.
15 (59:16) Þeir reika um eftir æti og urra, ef þeir verða eigi saddir.
16 (59:17) En ég vil kveða um mátt þinn og fagna yfir náð þinni á hverjum morgni, því að þú hefir gjörst háborg mín og athvarf á degi neyðar minnar.
17 (59:18) Vígi mitt, um þig vil ég kveða, því að Guð er háborg mín, minn miskunnsami Guð.